Kjarvalshvammur - menningarsaga í ríflega 70 ár

Overview

Laugardaginn 30. ágúst kl. 15.00 stendur Minjasafn Austurlands fyrir stuttri dagskrá í Kjarvalshvammi í Hjaltastaðaþinghá þar sem nýlegum endurbótum á sumarhúsi og bátaskýli Jóhannesar S. Kjarval og endurbættum upplýsingaskiltum við nýtt bílastæði og göngustíg verður fagnað. Viðburðurinn er hluti af Menningarminjadögum Evrópu en þema þeirra í ár er Byggingararfurinn – í fortíð og framtíð. Þá er þess minnst að í ár eru 50 ár liðin frá Evrópska húsverndarárinu 1975 en það markaði upphaf húsafriðunarsjóðs sem styrkt hefur endurbætur á húsakosti í Kjarvalshvammi.

Þau sem leggja leið sína í Kjarvalshvamm geta hlýtt á stutt erindi Þuríðar Elísu Harðardóttur, minjavörðs Austurlands um húsin í hvamminum og gildi þeirra í menningarsögulegu tilliti auk þess sem Elsa Guðný Björgvinsdóttir, deildarstjóri menningarmála hjá Múlaþingi og fyrrum safnstjóri Minjasafns Austurlands segir frá þeim endurbótum sem gerðar hafa verið á liðnum árum. Dagmar Ýr Stefánsdóttir, sveitarstjóri Múlaþings fjallar um gildi staða eins og Kjarvalshvamms fyrir sveitarfélög auk þess sem Björn Sveinsson, barnabarn Björns Guttormssonar, bónda á Ketilsstöðum, les úr bréfum Kjarvals til Björns en hann gaf listamanninum þessa spildu úr landi sínu fyrir sumarhús. Það var eina húsið sem Kjarval kallaði „sitt“ um ævina.

Kvenfélagið Björk í Hjaltastaðaþinghá sér um veitingar fyrir gesti.

Address
Kjarvalshvammur, 701 Egilsstaðir, Iceland